Innri friður – Innri styrkur

Hvað þarf til að viðhalda andlegu jafnvægi?

Hreyfing, hvíld, hollt mataræði gott sjálfstraust og áreitastjórnun eru grundvallarþættir í andlegri vellíðan. Til að ná og andlegu jafnvægi þarf fólk að rækta ,,sjálfið” daglega og vera sér meðvitað um öll þau ytri áreiti sem hafa mikil áhrif á sálarlífið, meðal annars samskipti við aðra. Jákvæð hugsun, gleði og bjartsýni eru besta vítamínsprautan.

Hvernig getum við bætt sjálfstraust okkar?

Margir þættir hjálpast að við uppbyggingu sjálfstraustsins. Þar má nefna jákvætt hugarfar, að treysta og trúa á sjálfan sig og eiga jákvæð samskipti við annað fólk þar sem kærleikurinn og fyrirgefningin eru heimsins bestu hugarverkfæri. Ennfremur legg ég áherslu á það að lifa lífinu lifandi með því að taka einn dag fyrir í einu eða að vera til ,,Núna” og koma auga á allt það góða í kringum okkur. 
Konur eru sérfræðingar í að gera alla hluti að áhyggjuefni. Það tekur frá manni ómælda hugarorku sem betur væri nýtt sjálfum okkur til framdráttar.

Hvernig hjálpar þetta námskeið þátttakendum?

Það sem konunum sjálfum hefur fundist hjálpa sér hvað mest er að uppgötva ótrúlegan kraft innra með sér til framsækni, í bæði einkalífi og í starfi. Að konur sjálfar bera ábyrgð á heilsu sinni og hamingju. Ein kvennanna lýsti upplifun sinni af námskeiðinu þannig að hún gerði sér ljóst hversu mikilvægt er að rækta sjálfan sig og komast nær þeim sannleika, hver maður í raun og veru er. Að undirstrika styrkleika í stað þess að vera alltaf að reyna að bæla niður gallana sem eru jú hluti af manni. Sjálfstraustið er ein af mikilvægustu forsendum hamingju og þetta námskeið hjálpaði henni til að styrkja það meir og meir. Annað sem hún nefndi var að henni var sýnt fram á hvernig hægt er að brynja sig fyrir andlegum árásum sem eru aðeins til þess fallnar að brjóta mann niður andlega.

Comments are closed.

Álfhólsvegur 4 - 200 Kópavogi
Sími: 863 6669
Netfang: liljan@liljan.is