Viðtal við Lilju Sigurðardóttur (úr Vikunni)

Viðtal í Vikunni 33 tbl. 67 árg., 24 ágúst, 2005

„Lífið fýkur ekki lengur fram hjá mér“

Lilja Sigurðardóttir hefur barist við þunglyndi í átta ár. Líðan hennar hefur verið sveiflukennd þennan tíma en á stundum verið svo slæm að helst hafi hún viljað binda enda á líf sitt. *Í vetur kynntist Lilja Bergþóru Reynisdóttur geðhjúkrunarfræðingi og með hjálp hennar tekist að fá jákvæða sýn á lífið og og líta bjartari augum til framtíðar, auk þess sem lyfjaskammturinn hefur minnkað.*

Lilja er ung að árum og ætti samkvæmt hugmyndum samfélagsins að vera að lifa blómaskeið lífs síns og sín bestu ár. Hvenær byrjaði hún fyrst að finna fyrir þunglyndi?

„Það er erfitt að tímasetja það nákvæmlega,“ segir Lilja hugsandi á svip. „Ég byrjaði að reyna vinna á þunglyndinu þegar ég var sextán ára gömul. Ég var þá fyrst sett á lyf en ég hætti að taka þau tveimur árum síðar. Ég taldi mig það góða að ég gæti það en fyrir þremur árum helltist þunglyndið yfir mig að nýju og líðan mín varð mjög slæm.“

Gerðir þú þér strax grein fyrir að þú þjáðist af þunglyndi ?

„Nei, en ég fór samt til geðlæknis og hann lét mig hafa lyf. Ég hitti þann lækni þrisvar og var í sambandi við hann heilan vetur en hann taldi óþarft að hitta mig oftar. Ég fór til útlanda og breytti um umhverfi eftir að hafa tekið lyfin í um tvö og hálft ár og ákvað sjálf að hætta. Ég náði mér frekar vel á strik úti og taldi mig geta það.“

Langar stundum mest til að binda enda á lífið

Hvernig varstu sem barn? Varstu glaðlynt barn eða hafðir þú þá strax tilhneigingu til þunglyndis?

„Mér er sagt að ég hafi verið opið og glaðlynt barn en ég missti mömmu mína þegar ég var níu ára og það setti auðvitað sitt mark á æskuna. Margir sem hafa þekkt mig frá því ég var lítil eru mjög undrandi á að ég sé að kljást við þunglyndi því ég hef alltaf verið opin og glöð. Fólk segist ekki geta séð það á mér að ég sé þunglynd. Ég fór hins vegar að verða vör við þetta á unglingsaldri.“

Getur þú lýst líðan þinni þegar þunglyndið er verst?

„Ég er rosalega eirðarlaus og finn engan tilgang í lífinu. Ég veit þá ekki til hvers ég ætti að lifa og byrja mjög gjarnan að rífa sjálfa mig niður. Ég er sjálfri mér verst að því leyti því ég tala til sjálfrar mín á mjög neikvæðan hátt og finnst ekkert sem ég geri nægilega gott. Ég er einnig ákaflega hörð við sjálfa mig þegar ég geri mistök eða eitthvað rangt og þótt öðrum finnist ég ekki hafa gert neina vitleysu get ég ekki fyrirgefið sjálfri mér og á það til að rífa mig niður í smæstu mola.“

Þunglyndi fylgja oft sjálfsvígshugsanir og sumir gera tilraunir til að taka eigið líf. Hefur það komið fyrir hjá þér?

„Ég reyndi tvisvar að taka eigið líf en var stöðvuð. Önnur tilraunin var mun alvarlegri en hin. Mig langaði á þeim tíma alltaf að binda enda á þetta og hugsunin um að enda líf mitt hefur blundaði í undirmeðvitundinni meðan mér leið verst. Það kom fyrir að ég var að keyra og hugsaði þá með mér hvort ég ætti ekki bara að keyra út af á þessum stað eða hinum. Það er stutt í hugsanir af þessu tagi hjá fólki sem er þunglynt og mig langaði stundum bara til að fara. Þá velti ég fyrir mér af hverju mér þurfti að líða svona illa. Mér fannst ég vera vanmáttug og ekki hafa neina stjórn á hugsunum mínum eða lífi. Ég réð ekki við mig.“

Ákvað að gera eitthvað sjálf í sínum málum

Hvernig áhrif hefur sjúkdómurinn haft á líf þitt? Hefur þú t.d. getað stundað nám og vinnu?

„Ég er búin með stúdentspróf en það tók tíma að ljúka því. Ég ætlaði til að byrja með ekki að fara í nám en ákvað svo að reyna. Síðasta árið í skólanum fékk ég að mæta þegar ég gat. Mætingin var gefin frjáls. Ég hef ekki mætt miklum skilningi þar sem ég var að vinna. Þáverandi yfirmaður minn, þrátt fyrir að vera heilbrigðisstarfsmaður, virtist ekki skilja að um sjúkdóm væri að ræða. Hann taldi að ég lægi heima í volæði. Hann vissi samt frá byrjun að eitthvað að.“

En í vetur fór að rofa til í þínu lífi. Hvað gerðist?

„Ég fór á námskeiðið Innri friður-Innri styrkur hjá Bergþóru Reynisdóttur geðhjúkrunarfræðingi og haldið að Fögruhlíð í Fljótshlíð. Ég las grein um námskeiðin í Vikunni sem ég var áskrifandi að lengi. Meðan mér leið verst gat ég ekki lesið bækur eða langar greinar einbeitingartíminn var það stuttur og margar greinar sem ég las í Vikunni hjálpuðu mér. Sumar las ég aftur og aftur og er enn að lesa. Það tók mig hins vegar tvo mánuði að taka ákvörðun um að fara á námskeið. Þegar ég fór inn á heimasíðu Bergþóru, liljan.is og sá að fyrirtæki hennar heitir Liljan ehf og fannst mér það vera tákn og verið væri að senda mér ákveðin skilaboð.

Helgin í Fögruhlíð var mér erfið. Margt af því sem sagt var kom eins og köld vatnsgusa framan í mig og ég gerði mér grein fyrir að ég yrði að gera eitthvað sjálf ef ég ætti að geta haldið áfram að lifa. Ég þyrfti að breyta sjálfri mér og taka ábyrgð á sjúkdómnum. Ég sá að ég átti minn þátt í vanlíðaninni og hugsanagangur minn var ekki réttur. Ég yrði að hætta að brjóta sjálfa mig niður og segja ljót orð um sjálfa mig. Ef mér ætti að líða betur yrði ég að taka á hugarfari mínu ekki að taka lyf og bíða eftir að eitthvað breyttist. Ég grét mikið þessa helgi á námskeiðinu og við Bergþóra áttum gott samtal í einrúmi á kvöldin. Hún benti mér á að langvinn viðtalsmeðferð væri heppileg fyrir mig og stakk upp því að ég fengi beiðni hjá heimilislækninum mínum og við færum að vinna saman að námskeiðnu loknu.“

Sérfræðingar mættu hlusta betur

Hvernig tók heimilislæknirinn í það þegar þú fórst til hans og sagðist vilja fara að vinna með geðhjúkrunarfræðingi?

„Hann var ekki viss um að það væri góð hugmynd og ætlaði ekki að fást til að samþykkja beiðnina. Hann spurði: „Hvað ætti hún að geta sem aðrir geta ekki?“ og vildi vita af hverju ég kysi frekar að vinna með henni en geðlækni.“

Og hverju svaraðir þú? Hvað gerir Bergþóru svona sérstaka að þínu mati?

„Fyrst og fremst hvernig hún hugsar og hennar hugsjónir. Allt það sem hún sýndi fram á meðan á námskeiðinu stóð. Hún hefur allt aðra sýn á sjúkdóminn en læknarnir. Þeir hlusta ekki almennilega á mann og ég hafði það oft á tilfinningunni gagnvart þeim að ég væri bara hlutur sem gæti tjáð mig. Hún hlustar á mig. Ég var hætt að hringja í geðlækninn sem ég var hjá því mér fannst ég stöðugt hrapa lengra niður í vanlíðan og hann bauð mér bara fleiri lyf. Bergþóra vildi vinna að því að finna ástæðurnar fyrir því að ég væri þunglynd og reyna að leysa úr þeim.“

Finnst þér þá skorta á að læknar og heilbrigðisstarfsfólk hlusti á fólk þegar það reynir að lýsa vanlíðan sinni?

„Já, það er ekki fallegt að segja það en maður þarf að reyna að fremja sjálfsmorð til að á mann sé hugsað. Þannig er það því miður. Þá fyrst virðist heilbrigðiskerfið uppgötva að eitthvað sé að. Það var ekki fyrr en ég hafði reynt sjálfsvíg tvisvar á tveggja mánaða tímabili að mér var hjálpað.

Ég gerði mér reyndar ekki sjálf fyllilega grein fyrir hversu alvarlegt ástandið var. Ég hélt alltaf að þetta myndi lagast og bráðum færi mér að líða betur. Staðreyndin er sú að maður þarf sjálfur að sættast við sjúkdóminn til að fá bata. Tímabundin tilfinningaleg vanlíðan er eðlilega en þegar hún er farin að safnast upp og vara í mörg ár þá er eitthvað að. Þunglyndið verður dýpra, eins og maður sé að moka sig niður í holu sem verður svartari eftir því sem neðar í jarðveginn er grafið. Ég hef oft verið spurð hvað hafi eiginlega gerst. Sjálfri finnst mér að móðurmissirinn hafi verið það áfall sem breytti skaplund minni. Það hófst með litlum tilfinningahnút, eins konar snjóbolta sem fór stækkandi eftir því sem árin liðu. Lyfin ein og sér leysa ekki svona tilfinningahnút. Maður verður að fá dyggilegan stuðning við að leysa hann. Fólk verður að skilja að þunglyndi er sjúkdómur og það velur sér enginn það hlutskipti að fá hann.“

Finnst hún eiga allt gott skilið í fyrsta sinn

Hvernig líður þér núna?

„Það er reyndar mismunandi eftir dögum. Ég nýt þó lífsins mun betur en áður og ég er mjög fegin að vera á lífi. Ég er ástfangin og finn loksins núna sterkt fyrir ástinni. Samband mitt við kærastann minn hefur varað í þrjú ár og þótt ég hafi alltaf fundið fyrir ást minni til hans hefur upplifunin aldrei verið jafnsterk. Ég hef verið á lyfjum og þau draga úr tilfinningum, gera mann flatan. Manneskja sem er á þunglyndislyfjum er einna líkust hljómflutningsgræjum sem stilltar hafa verið á low. Það er búið að minnka allt niður á minnsta styrk. Ég finn þess vegna meira fyrir lífinu, tilfinningasveiflum og lífið fýkur ekki lengur fram hjá mér. Í fyrsta sinn finnst mér ég eiga allt gott skilið.

Ég held dagbók og skrifa um það hvernig mér hefur liðið yfir daginn. Ég er ekkert að tíunda hvað ég gerði heldur fjalla fyrst og fremst um líðan mína og ef mér hefur liðið illa hjálpar dagbókin mér að skilja hvað kom vanlíðaninni af stað. Þegar ég les yfir sé ég sömuleiðis hvort mér hefur fundist ég fara rangt að hlutunum. Ég hef náð það langt að ég næ að stöðva sjálfa mig þegar ég byrja að brjóta mig niður. Þá get ég sagt við sjálfa mig: „Suss, ekki láta svona. Víst áttu allt gott skilið.“ Ég gef líðan minni einnig einkunn á bilinu 0-10 og hef búið til súlurit sem sýnir vel þróunina. Súluritið sýnir meðaltalið yfir vikurnar frá því við Bergþóra byrjuðum að vinna saman í mars.

Einn daginn spurði Bergþóra mig hvernig mér litist á að reyna að draga smá saman úr notkun þunglyndislyfjanna þar sem ég væri komin í mikið betra tilfinningalegt jafnvægi. Heimilislæknirinn var mjög jákvæður gagnvart þeirri hugmynd, lyfjagjöfin hefur verið minnkuð smá saman og súluritið hefur hjálpað mér við það. Ég stefni að því að verða að mestu leyti lyfjalaus í framtíðinni. Það mun taka tíma en þó að komi smá niðursveiflur af og til, þá er það eðlilegt. Ég sé núna að niðursveiflurnar urðu meiri þegar ég byrjaði að opna mig um tilfinningaleg mál sem hvílt hafa á mér svo lengi. Tilfinningasveiflurnar haldast í hendur við það sem ég er að vinna með hverju sinni.

Í fyrra greindist ég líka með vanvirkni í skjaldkirtli og hef fengið rétt lyf við því. Það kann að hafa haft sinn þátt í því að ég fór að verða þunglynd. Vanvirkni í skjaldkirtli fylgir slen, orkuleysi og vanlíðan og þótt ég viti ekki hvort hún hafi verið til staðar aftur þá hefur það ástand áreiðanlega haft árhif á þá stóru niðursveiflu sem ekki upplifði fyrir ári.“

Það er ómögulegt að sjá á þessari ungu, fallegu stúlku að hún sé veik. Lilja hlær þegar þetta er sagt og bendir á að það sé einmitt vandinn við þunglyndi. Fæstir beri það utan á sér að þeir séu veikir og þess vegna sé umhverfið oft neikvætt í þeirra garð. Hún telur sig vera á réttri leið, er full af bjartsýni og hlakkar til þess dags þegar hún hefur sigrast á þunglyndinu og fundið andlegt jafnvægi. Það er ekki hægt annað en að hafa trú á að þessari gullfallegu konu muni takast það.

Comments are closed.

Álfhólsvegur 4 - 200 Kópavogi
Sími: 863 6669
Netfang: liljan@liljan.is