Þörf eða Þyrnirósarsvefn?

Fjöldi manns hefur unnið sig frá andlegri vanlíðan án nokkurra geðdeyfðarlyfja. Það er alltaf mikilvægt að gefa sér tíma og leitast við að komast að rótum vandans, áður en gripið er til geðlyfja.

Andleg vanlíðan er ekki endilega af geðrænum toga

Erlendar rannsóknir gefa til kynna að það sé tilhneiging heilbrigðisfagfólks að sjúkdómsgera tilfinningalega vanlíðan kvenna sem oft er fremur af félagslegum rótum runnin en geðrænum og bjóða þunglyndislyf sem fyrsta og eina meðferðarúrræðið. Notkun þunglyndislyfja er meiri meðal kvenna en karla á Íslandi og fengu konur 74% fleiri dagskammta en karlar í heild á árinu 2001. Konur hafa meiri þörf en karlar til að tala um tilfinningalega líðan sína; samviskubit, áföll í bernsku, innibyrgða reiði og sorg, sem þær skynja undirniðri að þarf að koma upp á yfirborðið svo að hægt sé að sigrast á depurðunni, kvíðanum og angistinni. Karlar eru aftur á móti fremur uppteknir af erfiðleikum á líðandi stund, til dæmis í samskiptum við maka, börn og vinnufélaga og eru sannfærðir um að eitthvað í umhverfinu eða ytri aðstæður valdi þeim vanlíðan. Þeir eru ekki eins ginkeyptir fyrir geðdeyfðarlyfjum og konur, en virðast gjarnari en þær á að fá útrás fyrir reiði og sorg í óhóflegri áfengisdrykkju.

Ofurtrú á þunglyndislyfjum og skyndilausnum

Almenningur vill fá batann helst í gær og virðist hafa ofurtrú á þunglyndislyfjum, auk þess sem tiltölulega auðvelt er að nálgast þau. Andleg vanlíðan verður ekki leyst á stuttum tíma. Reynslan hefur sýnt að langtíma viðtalsmeðferð er áhrifarík aðferð í leit að lausnum á geðrænum vanda. Grípa getur þurft til geðlyfja er kvíðinn er mikill og um svefnröskun er að ræða.

Fylgikvillar og fráhvarfseinkenni

Andleg vanlíðan á sér oft djúpar, tilfinningalegar rætur, sem hvorki sjúklingurinn né viðkomandi heilbrigðisfagmaður geta gert sér grein fyrir í einum eða örfáum heimsóknartímum sem taka ef til vill 15 mínútur hver tími. Það er lágmark að boðið sé upp á viðtals- og stuðningsmeðferð í allt að þrjá mánuði áður en gripið er til þunglyndis- og róandi lyfja. 
Fylgikvillar þunglyndislyfja geta verið eftirfarandi: Tilfinningaleg flatneskja, kyndeyfð, einbeitingaskortur, skortur á fínhreyfingum, skjálfta og svefnhöfgi og einstöku sinnu koma sjálfsvígshugsanir upp í hugann. Yfirleitt ganga aukaverkanir tilbaka þegar inntöku lyfjanna er hætt, en þó virðist miðtaugakerfið einstaka sinnum skaðast og þá getur skjálfti og fínhreyfingarvandamál orðið viðvarandi. Fráhvarfseinkennin eru ekki mjög frábrugðin fylgikvillum lyfjanna, en oft þjáningafyllri. Svitaköstin, höfuðverkurinn, svefntruflanir, geð- og tilfinningasveiflur virðast stundum engan endi ætla að taka, þó allt líði þetta hjá að lokum.

Sjálfstraustið ekki byggt upp á lyfjum

Langflestir þeirra sem leita hjálpar vegna andlegrar vanlíðunar eiga það sameiginlegt að sjálfstraustið er lítið og sjálfsmyndin er veik. Geðrækt á að vera jafn sjálfsagður þáttur í lífi okkar og þjálfun líkamans er, en þar sem sálarlífið er ósýnilegt er það svo freistandi að slá þeim þætti á frest í önnum dagsins. Gott sjálfstraust og sjálfsþekking er lífsstíll sem við þurfum á að halda í framtíðinni, til þess að takast á við lífsverkefnin sem koma svo oft óumbeðið og óvænt. Lyf leysa ekki tilfinningahnúta fortíðar eða nútíðar, þú verður að leysa hnútana sjálf/ur og með hjálp og stuðningi fagfólks á geðsviði.

Námskeiðið Innri friður-Innri styrkur er valkostur fyrir þá sem langar að byggja upp grunnþekkingu í sjálfseflingu og öðlast betra sjálfstraust. Skoðið allt um námskeiðið annars staðar á síðunni.

Comments are closed.

Álfhólsvegur 4 - 200 Kópavogi
Sími: 863 6669
Netfang: liljan@liljan.is