Þunglyndislyfi eru engin lækning (grein úr Vikunni)

Viðtal í Vikunni þann 9 nóvember 2004

Búum við yfir einhverri innri orku sem hægt er að virkja okkur sjálfum og öðrum til góðs? Bergþóra Reynisdóttir geðhjúkrunarfræðingur trúir að svo sé og það sem meira er hún hefur sannreynt það í eigin lífi. Nýlega ákvað hún að setja saman helgarnámskeið fyrir konur þar sem hún og hjálparkona hennar, Katrín Jónsdóttir, svæða- og viðbragðsfræðingur, blása konum í brjóst seiglu og styrk.

Námskeiðið heitir Innri friður – Innri styrkur og er haldið að Fögruhlíð í Fljótshlíð þar sem Bergþóra og kærasti hennar hafa verið í óðaönn við að laga húsið og koma upp aðstöðu til námskeiðahalds. Bergþóra hefur starfað innan geðheilbrigðiskerfisins í rúm tuttugu ár og lýsti því eitt sinn yfir í heyranda hljóði að hún ætlaði sér að taka þátt í að breyta kerfinu þannig að það félli betur að þörfum nútímakvenna.

Bergþóra starfaði lengi inni á stofnunum en þann 11. ágúst 1998 stofnaði hún eigið fyrirtæki, Liljan ehf. Stefna fyrirtækisins var sú að sinna geðrænum vandamálum fólks í þess eigin umhverfi og gera því kleift að sinna félagslegum þörfum og skyldum sínum á meðan á meðferðarvinnunni stæði.

Hugarró og innra jafnvægi í fögru umhverfi

Að mati Bergþóru er það ekki aðeins þjóðfélagslegur sparnaður, heldur miklu fremur það að fólki gefst kostur á að takast á við geðræn vandamál í eigin umhverfi, án fjárhagslegrar eða félagslegrar röskunar og að sjálfsögðu nýtur öll fjölskyldan góðs af. En skoðun Bergþóru er sú að mikilvægast sé að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann og þess vegna ákvað hún að bjóða upp á námskeiðin. Konum gæfist þá kostur á að efla sjálfsvitund sína og innri styrk í fallegu umhverfi þar sem öðlast má hugarró og innra jafnvægi.

Að hverfa aðeins úr streitu borgarlífsins og hugsa eingöngu um sjálfar sig í tvo sólarhringa er sennilega munaður sem flestar konur telja ekki rétt að veita sér en Bergþóra er á því að það sé einfaldlega nauðsynlegt.

„Í flugvélum erum við beðnar um að setja súrefnisgrímuna fyrst á sjálfar okkur en síðan á börnin,“ segir Bergþóra. „Það er ekkert af ástæðulausu því ef við byrjum á börnunum erum við sjálfar orðnar máttvana af súrefnisskorti áður en okkur tekst að koma eigin grímu á sinn stað. Ég tel að þunglyndislyf ein og sér geri lítið fyrir konur. Það eru til konur sem í tuttugu ár hafa tekið þunglyndislyf án þess að það hafi breytt nokkru í lífi þeirra. Inn á stofnunum er mikið álag og þar af leiðandi hefur starfsfólkið lítinn tíma til að ræða við sjúklingana og komast að rótum vandans.“

Sjaldan spurt um orsök vandans

„Ég hef haft sjúklinga til meðferðar sem hafa verið innan geðheilbrigðiskerfisins í áratugi og enginn haft hugmynd um að rót vandans mætti rekja til bernskuáranna þegar viðkomandi varð fyrir kynferðislegu ofbeldi. Iðulega eru konurnar að segja frá þessu í fyrsta sinn þarna og þegar ég spyr hvers vegna er mér svarað því að enginn hafi spurt þær út í þessa hluti fyrr, “ segir Bergþóra enn fremur. „Eitt af markmiðum námskeiðsins er að kenna konum að leita lausna á tilfinningalegu ójafnvægi og með því má koma í veg fyrir að t.d. þunglyndi og kvíði nái tökum á einstaklingnum.“

Námskeiðið er frábærlega upp byggt. Fyrst er þátttakendum kennt að lifa í núinu og gleyma áhyggjunum sem ævinlega búa baka til í hugskoti kvenna. Gönguferðir, hvíld og slökun er einnig stór hluti af starfinu. Hreyfing, hvíld og áreitisstjórnun eru, að mati Bergþóru, mikilvægur þáttur í því að halda tilfinningalegu jafnvægi. Vanræki menn þennan þátt geti það leitt til niðurbrots.

Að þessu sinni eru sex þátttakendur saman komnir í stofunni í Fögruhlíð á föstudegi. Konurnar eru svolítið feimnar hver við aðra til að byrja með en á laugardeginum losna þær smátt og smátt við feimnina. Þær tjá sig meira og taka fullan þátt í því sem fram fer.

Að láta ekki undan áreitinu

Sumar hafa lært að standa með sjálfum sér og treysta eigin rödd af sjálfsdáðum. Kennsla Bergþóru er þeim eingöngu staðfesting á að þótt það taki á sé það þess virði. Sömuleiðis er hollt að fá aðstoð við að kveðja fortíðina og leggja frá sér byrðarnar. Tilfinningahnútar úr fortíðinni eru, að sögn Bergþóru, það sem helst stendur í vegi fyrir því að fólk geti blómstrað hér og nú.

Síðar um daginn er farið í áreitisstjórnun og það hvernig varast megi að láta umhverfið hafa þau áhrif á ,,sjálfið” að brestir myndist í tilfinningalífinu og menn missi stjórn á sér. Bergþóra dregur upp áhrifamikla mynd með því að binda trefil um mitti einnar konunnar og láta þrjár aðrar toga í hann á mismunandi stöðum. Á daginn kom að ekki er auðvelt að halda jafnvægi undir slíkum kringumstæðum og konan sveiflaðist fyrst í eina átt og síðan í aðra. Hver og einn er alla daga að berjast við að koma á jafnvægi og halda öllum þráðum í hendi sér og ekki að undra þótt stundum verði eitthvað undan að láta. En Bergþóra kann ráð og líkt og öll góð ráð eru þau einföld en áhrifarík.

Katrín Jónsdóttir, svæða- og viðbragðsfræðingur, veitir þátttakendum síðan innsýn í leyndardóma svæðanudds. Allir fá að prófa að nudda. Það kemur á óvart hversu vel þetta virkar og að það er bæði gaman að nudda og þiggja nudd. Katrín leiðir líka slökun og hugleiðslutímana og opnar konunum leiðina að hugarró og því að útiloka umhverfið. Með þjálfun má ná því stigi í hugleiðsluástandi að hugurinn tæmist alveg og hætti öllu flökti og þá er fimmtán mínútna hugleiðsla á við nokkurra klukkustunda svefn.

Orkunni hleypt út

Eftir að ísinn er brotinn er mikið hlegið og margt sér til gamans gert á kvöldvöku á laugardagskvöldinu. Samskiptaþjálfun og samskiptahæfni reynist þátttakendum auðveld lexía að læra daginn eftir. Að lokum velta konurnar því fyrir sér hvernig þær geti viðhaldið andlegu jafnvægi og nýtt sér þann lærdóm sem þær hafa fengið. Ótal margar hugmyndir eru settar fram og auðheyrt að fæstar konurnar verða í vandræðum með að nýta sér það sem þær fengu í veganesti.

Á námskeiðinu er boðið upp á fullt fæði og alla helgina borðuðu konurnar grænmetisfæði og holl, heimabökuð brauð. Þær eru sammála um að mataræðið hafi mikið að segja og þeim hafi orðið mjög gott af matnum sem þær fengu. Eins er gildi hreyfingar þeim ofarlega í huga og þær eru ákveðnar í að halda áfram gönguferðum eða annarri hreyfingu en ætla jafnframt að tryggja sér næga hvíld og slökun daglega.

Eftir stendur, og er efst í huga allra, að eitthvað stórkostlegt gerist þegar konur taka að deila reynslu sinni og þekkingu sem þær hafa öðlast í eldlínu átaka bæði í einkalífi og starfi. Vissulega losnar úr læðingi gífurleg orka þegar góðar konur koma saman og byrja að gefa af sér. Á tölvuöld sakna allir samskipta af þessu tagi. Að horfast í augu við aðra manneskju, hrærast til samúðar með henni eða fyllast aðdáun og gleði vegna þess að henni hefur tekist að sigrast á hindrununum. Bjartsýni og gleði er ríkjandi þegar konurnar halda heim að loknum notalegum dögum í Fögruhlíð.

Dagskrá námskeiðsins

Á föstudegi er dagskráin kynnt og þátttakendur kynna sig. Því næst er fyrirlesturinn Slakaðu á! Vertu til „Núna“! Þá tekur við gönguferð, hvíld og kvöldverður. Eftir kvöldmat er slökun og hugleiðsla.

Laugardagurinn byrjar með morgungöngu og teygjum. Þá er morgunverður snæddur og næst er fyrirlestur um innri styrk. Klukkan ellefu er fyrirlestur undir yfirskriftinni Treystu „sjálfinu“ þínu. Þá tekur við Fortíðin kvödd og hádegisverður og hvíldarstund. Eftir matinn er áreitisstjórnun, hópastarf, sund og slökun fyrir kvöldverð. Um kvöldið er kvöldvaka að gömlum og góðum, íslenskum sið og hugleiðsla fyrir svefninn.

Á sunnudagsmorgun er farið í gönguferð, gerðar teygjur og borðaður morgunverður. Kennslustund dagsins lýtur að samskiptahæfni og samskiptaþjálfun. Eftir hádegisverð er hvíldarstund og fyrirlestur um hvernig viðhalda megi andlegu jafnvægi. Að lokum er hópastarf þar sem þátttakendur taka saman eigin hugmyndir um hvernig best sé að halda jafnvæginu. Þá er slökun og kaffi. Þar með er námskeiðinu lokið og þátttakendur halda heim. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér námskeiðin frekar geta farið inn á slóðina www.liljan.is. Þess má geta að til stendur að halda námskeið mánaðarlega og í þrjá mánuði eftir hvert námskeið verður þeim fylgt eftir með fundum á fjögurra vikna fresti. Símanúmer Liljunnar eru 564 6669 og 863 6669.

Fagrahlíð

Fagrahlíð í Fljótshlíð er í 105 km fjarlægð frá höfuðborginni sem er um klukkustundar akstur. Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull blasa við og yfir öllu gnæfir fjallið Þríhyrningur. Úr brekkunni blasir við endalaus víðátta Suðurlandsundirlendis og Vestmannaeyjar sjást úti við sjóndeildarhring og virðast vera ójarðneskt ævintýraland sem svífur í loftinu fremur en eyjar umflotnar sjó.

Comments are closed.

Álfhólsvegur 4 - 200 Kópavogi
Sími: 863 6669
Netfang: liljan@liljan.is

<