Kynning á starfsseminni

Kynning á starfseminni

Starfsstöðvar félagsins eru að Vallargerði 10, 200-Kópavogur og að Fögruhlíð, 861-Hvolsvöllur.

Á báðum stöðum er boðið upp á sömu þjónustu en námskeiðið Innri friður – Innri styrkur er haldið að Fögruhlíð um helgar, á veturna, en eftirfylgdin er haldin í Kópavogi.

Markmið félagsins er að efla geðheilsu fólks sem felst meðal annars í hvers konar fræðslu og forvarnarstarfi, ráðgjöf og handleiðslu og viðtalsmeðferð. Starfsemin felur ennfremur í sér geðmeðferðarvinnu einstaklinga með langvinna og/eða alvarlega geðsjúkdóma og er sú vinna unnin úti í samfélaginu, inni á heimilum fólksins.

Markviss og fagleg vinnubrögð eru viðhöfð og byggja á áratuga reynslu Bergþóru Reynisdóttur, geðhjúkrunarfræðings við geðmeðferðarstörf víðsvegar í samfélaginu. Meðferðarvinnan byggir á heildrænni sýn á einstaklingnum, það er að segja á andlegri, líkamlegri, félagslegri og trúarlegri sýn og tillit er tekið til þarfa hvers einstaklings fyrir sig.

Mikilvægt er að leita leiða til lausna á tilfinningalegu ójafnvægi, sem oftast leiðir til geðraskana eins og þunglyndis og kvíða ef ekkert er aðhafst. Geðheilsuefling felur í sér þætti eins og þá að kenna fólki að leysa árekstra í samskiptum með lausnarmiðaðri sýn, öðlast jákvæða hugsun og byggja upp grunnþætti í sjálfseflingu til að öðlast betra sjálfstraust.

Árangur meðferðarvinnu byggir alltaf á samvinnu tveggja aðila, það er að segja viðkomandi einstaklings sem leitar eftir aðstoð og meðferðaraðilans. Góður mælikvarði á árangri er fyrst og fremst ánægja viðskiptavinarins.

Námskeiðið Innri friður – Innri styrkur – Sjálfsefling-lífsstíll til framtíðar

Námskeiðið er góður kostur fyrir þá sem vilja efla geðrækt og viðhalda henni til framtíðar. Helstu markmið námskeiðsins eru að byggja upp grunnundirstöðu í sjálfsþekkingu, sjálfseflingu og samskiptahæfni sem leiðir til innra öryggis og tilfinningalegs jafnvægis. Að viðhalda jákvæðum samskiptum og leysa árekstra með lausnarmiðaðri sýn. Áhersla er á jákvæða hugsun, slökun og það að “Lifa Lífinu Lifandi,,

Álfhólsvegur 4 - 200 Kópavogi
Sími: 863 6669
Netfang: liljan@liljan.is